Áhugi fjölmiðla á handbolta bundinn við A-landslið karla

Ég sé mig knútinn til að stinga niður penna í framhaldi af skrifum þessa ágæta blaðamanns sem hér skrifar, en einhvernvegin sjá ákveðnir "áhugamenn" um handbolta í hópi blaðamanna sig knúna til að skrifa af miklum móð rétt í kringum ársþing HSÍ aldrei sem fyrr.  Nei Víðir við sem stöndum í þessum erum ekki búnir að gleyma því að úrslitakeppni og hvað..15 liða deild var að missa marks á sínum tíma. En var það fyrirkomulagið eða aðrir utanaðkomandi þættir sem spiluðu stærstu rulluna í því? Mönnum er frjálst að nota þennan heila sem þér er tíðrætt um og finna út bestu samsetninguna og vitrænasta fyrirkomulagið á deildarkeppninni.

Ég vil benda á þá staðreynd að ekki þarf að vera samansem merki milli áhuga fólks á íþróttinni og umfjöllun fjölmiðla, samanber mörg dæmi um aðrar íþróttagreinar en handbolta. T.d. hefur 1. deildin í handknattleik verið mjög spennandi og á köflum stórskemmtileg í vetur og margir áhorfendur á leikjum sumra liðanna. Dæmi um leiki Aftureldingar og Selfoss í umspili um sæti í úrvaldsdeild nú á dögunum.  Troðfullt hús á báðum leikjum en umfjöllun lítil sem enginn, blaðamenn láta ekki sjá sig og setja ekki einu sinni inn úrslit þó þeir fái þau send á tölvupósti. Ég undanskil þó Mbl.is sem setti sig í samband við sitthvorn þjálfarann að þessu sinni og sagði frá í örfáum orðum. Oftar en ekki þarf bara nokkra útsjónarsemi til að komast að því hvernig leikir hjá öðrum liðum í 1. deild fóru, því hvergi er minnst á þá í blöðum eða sjónvarpi.

Umfjöllun RÚV um íþróttina er auðvitað til mikillar skammar og klárt samningsbrot þeirra við HSÍ, liðin  áhugamenn um íþróttina víða um land fá að sjá örstutt skot úr völdum leikjum umferða í mánudagssporti án heildstæðrar umfjöllunar. Örfáar beinar útsendingar og einkennilega valdar og tímasettar. Varð maður vitni af því í fyrra þegar Afturelding var í úrvalsdeild að myndatökumaður hljóp inn í hús í miðjum leik og tók nokkrar mínútur og var svo rokinn með það sama á næsta leik til að geta sýnt eitthvað í fréttum sjónvarps. Hvar er samstarfið milli Stöð2 og RÚV sem tekur til upptöku á leikjum úr knattspyrnu karla og kvenna þar sem allir leikir hverrar umferðar eru teknir upp frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Ætti að vera minna mál að útfæra í handboltanum.

Varðandi efni greinar Víðis þá er það nú bara svo að 8 liða úrvalsdeild hefur sína galla, það var bara ekki spennandi að sjá fjórfalda umferð þar sem eitt lið stakk af og síðustu umferðirnar ekkert spennandi eins og raunin var í fyrra.  Einnig var 25% fallprósenta sem var auðvitað allt of mikið. Það er ekki svo að fyrirkomulagið skapi áhuga og umgjörð heldur er það mikið til verk HSÍ í samstarfi við fjölmiðla að hjálpa til við það. Á hverju vori fer t.d. mikið púður hjá KSÍ og fjölmiðlum að auglýsa deildina með góðum árangri og mikið sýnt frá leikjum í sjónvarpi. Við höfum mjög frambærilega handknattleiksmenn og öfluga deild hér heima sem að mínu viti er verkefni nýrrar stjórnar HSÍ að koma almennilega á framfæri. Samningurinn við N1 gerði lítið fyrir félögin og í raun furðulegur þar sem hann kostaði hvert lið stórfé, ég sem hélt að N1 hefði borgað HSÍ fyrir að auglýsa deildina en það var víst öfugt. HSÍ þarf að hysja upp um sig brækurnar gagnvart félögunum og ekki vera eingöngu samband sem sér um landsliðin sem þeir hafa þó gert með sóma og eiga hrós skilið fyrir að sinna góðu starfi mjög undirmannað. Líklega þarf bara skipulagsbreytingar á starfi HSÍ og meira púðri og peningum varið í að byggja undir grasrótina. Því að hvar er landsliðið ef að félögum fækkar og færri fá áhuga á íþróttinni sem iðkendur og áhugamenn vegna þess sem ég vil leyfa mér að kalla sinnuleysis handknattleiksforystunnar.

Ekki er nóg að kalla til gamla landsliðsmenn sem hóa í nokkra utandeildarspilara og kalla það lið undir merkjum gamalla og gróinna félaga. Það sýndi sig að aðeins 4 lið í 1.deild voru með alvöru lið í vetur og í raun eru skilin þar á milli úrvalsliða sem eiga að vera í úrvalsdeild og hinna. Sama hvort það er kallað 1.deild eða ungmennadeild skiptir ekki máli. Það eru þó alltaf einhverjir hagsmunir stóru liðanna t.d. að geta pikkað upp efnilega menn úr liðum sem falla og þeirra sem komast ekki upp um deild og á meðan verður ekki hróflað við þessu skipulagi.


mbl.is Fljótir að gleyma fyrri raunum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband