Kæri Hannes Hólmsteinn

Mig langaði að setja niður á blað nokkrar línur vegna greinar þinnar í Morgunblaðinu í dag sem ber yfirskriftina ofbeldi og valdníðsla. Þar vísar þú beint til mótmæla almennings og kröfu hans um afsögn ríkisstjórnarinnar, kröfu sem var afleiðing hruns efnahagslífsins og heimilanna í landinu. Þú  kallar það ofbeldi sem hrakti síðustu ríkisstjórn frá völdum, er það ofbeldi að nota lögbundin rétt sinn til mótmæla ástandi sem frjálshyggjuöflin og Sjálfstæðisflokkurinn (hér eftir kallaður flokkurinn) í landinu hafa leitt yfir þjóðina? Fyrrverandi forsætisráðherra Geir Haarde sagði að ekki mætti skella skuldinni á ákveðnar persónur eða einstaklinga þegar hann var spurður hvort að stjórn Seðlabankans ætti að víkja. Það var greinilega ekki inn í myndinni að pólitískur bankastjóri, ráðinn af flokknum skyldi axla ábyrgð á því ástandi sem hann sjálfur kom yfir þjóðina. Ef þú ert því ekki sammála þá ættir þú að lesa greinar eftir þig þar sem þú sjálfur þakkar Davíð allt það góða sem hann hefur yfir okkur leitt, má þá ekki gefa honum smá hlut í því hruni sem nú blasir við?  Davíð sem forsætisráðherra og alráður í flokknum og ríkisstjórn síðustu tæpu 20 árin og svo einnig sem hæstráðandi í Seðlabankanum. Þeirri stofnun sem ætlað er það hlutverk að hafa stjórna á fjármálalífinu, ná verðbólgumarkiðum, halda fjármálastöðuleika, sjá til þess að gjaldeyrisvaraforði sé nægur, halda uppi greiðslumiðlun hagkerfisins, allt þetta mistókst bankanum. Í stað þess er hann í sífelldu stríði við almenning og atvinnulíf í landinu með misheppnaða peningastefnu og handónýtan gjaldmiðil í farteskinu sem hefur ekki valdið öðru en skaða í íslensku efnahagslífi. Varðhundur Davíðs sem ryðst fram á ritvöllinn honum til veikrar varnar er ekki trúverðugur í skrifum sínum  þegar hann talar um leigupenna og auðmenn sem vilja Davíð frá völdum. Krafan er einföld og hún er vilji meirihluta þjóðarinnar (sjá skoðanakannanir) og snýst ekki eingöngu um persónu Davíðs. Hún er sú að við viljum fá aukinn trúverðugleika í Seðlabankann, peningastefnu sem virkar og vinnubrögð sem bera vott um fagmennsku og traust. Það er ekki mjög traustvekjandi að þegar þú talar um að Davíð hafi varað við hruni bankanna, þá er vísað í einkasamtöl og minnismiða, sem hvergi er hönd á festandi. Allar skýrslur og umsagnir um bankanna sögðu einum rómi að þar færu traustar og vel reknar fjármálaeiningar, engar alvöru aðgerðir til að stemma stigu við vexti bankanna og ekkert sem nú má rekja sem viðleitni til að spyrna við fótum. Það getur vel verið og er óumdeilt að Davíð Oddson er einn mikilhæfasti stjórnmálaforingi sem Íslendingar höfum átt. Hefur að bera persónutöfra og valdmennsku sem líkja má við suma einræðisherra sögunnar, næmt auga fyrir aðalatriðum, ákveðni og festu í að fylgja sínum málum eftir, hollustu við þá sem honum eru fylgjandi og áberandi langdrægni gagnvart hinum sem ekki eru honum að skapi eða skoðanaandstæðingum. Allt ágætir eiginleikar forystumanns flokksins en ekki alveg það sem Seðlabankinn þarf til að vera sú stofnun sem sátt er um í þjóðfélaginu. Það er tímaskekkja, sem ekki aðeins erlendir sérfræðingar hafa bent á, að stjórnmálamaður á eftirlaunum fari í Seðlabankann. Steingrímur Hermannsson talar um í endurminningum sínum að veran í Seðlabankanum hafi verið ágæt, en heldur róleg fyrir hans smekk. Þú segir í grein þinni að eftir reglugerðarbreytingar hafi eftirlitsskylda Seðlabankans horfið og aðeins smáverkefni eins og skýrslugerð og lausafjárjafnaðarreglur haldið bönkunum við efnið. Hverjir sömdu leikreglurnar á þessum árum og hverjir voru við stjórn þegar Davíð fór í eftirlaunadjobbið, kannski flokkurinn? Hversvegna er Sjálfstæðismönnum svona í mun að hafa Davíð áfram í Seðlabankanum, eru menn svo lafhræddir við hann að enginn þorir að koma fram opinberlega og krefjast afsagnar hans, vilja menn kannski ekki með nokkru móti að hann komi aftur í stjórnmálin? Góðir og gegnir flokksmenn eins og Ingvi Hrafn sögðu að Davíð og Geir væru í raun eins og æxli í flokknum, en bætir við „hef ég heyrt frá ónafngreindum aðilum í flokknum“, enginn þorir að koma fram undir nafni nema Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Nú þegar Róm brennur og ný ríkisstjórn hefur tekið við kyndlinum, þá ættu þingmenn og sjálfskipaðir varðhundar flokksins að sjá sóma sinn í því að gefa ríkisstjórninni þann starfsfrið sem þeir sjálfir óskuðu eftir en nýttu ekki þegar þeir höfðu hann. Og Davíð sem lagði niður heila stofnun árið 2002 ætti nú ekki að þurfa að barma sér á þeim rithöfundaeftirlaunum sem hann og flokkurinn kom á auk þeirra milljóna sem hann á von á vegna starfsloka sinna í Svörtuloftum.Hannes orðbragðið sem þú notar um mig og almenning í landinu að við séum lýðskrumarar sem fari með ofbeldi og valdníðslu, er bara ekki sæmandi manni sem vill láta taka sig alvarlega. Ekki vera svo blindur af flokkshollustu og ímyndaðri heift óflokksbundna út í Davíð að þú sjáir þig knúinn til að kalla almenning og umboðsmenn hans lýðskrumara og ofbeldismenn.Krafa almennings er einföld við viljum búa við mannsæmandi kjör, hafa vinnu, geta framfleytt fjölskyldum okkar. Búið við svipuð vaxtakjör og í löndum sem við viljum bera okkur saman við, hafa húsnæði og velferðakerfi sem heldur utan um fjölskyldurnar í landinu.  Það er verið að fylgja eftir einni háværustu kröfu Íslandssögunnar að hreinsa til í gjörspilltu stjórnkerfi landsins og það er núverandi ríkisstjórn að gera í umboði fólksins og á hún hrós skilið fyrir það. Tími græðgiaflanna og þeirra sem voru ofurseldir Mammon er liðinn, nú eru það önnur gildi og allt önnur hugmyndafræði sem þurfa brautargengi á Íslandi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband