Færsluflokkur: Bloggar

Áhugi fjölmiðla á handbolta bundinn við A-landslið karla

Ég sé mig knútinn til að stinga niður penna í framhaldi af skrifum þessa ágæta blaðamanns sem hér skrifar, en einhvernvegin sjá ákveðnir "áhugamenn" um handbolta í hópi blaðamanna sig knúna til að skrifa af miklum móð rétt í kringum ársþing HSÍ aldrei sem fyrr.  Nei Víðir við sem stöndum í þessum erum ekki búnir að gleyma því að úrslitakeppni og hvað..15 liða deild var að missa marks á sínum tíma. En var það fyrirkomulagið eða aðrir utanaðkomandi þættir sem spiluðu stærstu rulluna í því? Mönnum er frjálst að nota þennan heila sem þér er tíðrætt um og finna út bestu samsetninguna og vitrænasta fyrirkomulagið á deildarkeppninni.

Ég vil benda á þá staðreynd að ekki þarf að vera samansem merki milli áhuga fólks á íþróttinni og umfjöllun fjölmiðla, samanber mörg dæmi um aðrar íþróttagreinar en handbolta. T.d. hefur 1. deildin í handknattleik verið mjög spennandi og á köflum stórskemmtileg í vetur og margir áhorfendur á leikjum sumra liðanna. Dæmi um leiki Aftureldingar og Selfoss í umspili um sæti í úrvaldsdeild nú á dögunum.  Troðfullt hús á báðum leikjum en umfjöllun lítil sem enginn, blaðamenn láta ekki sjá sig og setja ekki einu sinni inn úrslit þó þeir fái þau send á tölvupósti. Ég undanskil þó Mbl.is sem setti sig í samband við sitthvorn þjálfarann að þessu sinni og sagði frá í örfáum orðum. Oftar en ekki þarf bara nokkra útsjónarsemi til að komast að því hvernig leikir hjá öðrum liðum í 1. deild fóru, því hvergi er minnst á þá í blöðum eða sjónvarpi.

Umfjöllun RÚV um íþróttina er auðvitað til mikillar skammar og klárt samningsbrot þeirra við HSÍ, liðin  áhugamenn um íþróttina víða um land fá að sjá örstutt skot úr völdum leikjum umferða í mánudagssporti án heildstæðrar umfjöllunar. Örfáar beinar útsendingar og einkennilega valdar og tímasettar. Varð maður vitni af því í fyrra þegar Afturelding var í úrvalsdeild að myndatökumaður hljóp inn í hús í miðjum leik og tók nokkrar mínútur og var svo rokinn með það sama á næsta leik til að geta sýnt eitthvað í fréttum sjónvarps. Hvar er samstarfið milli Stöð2 og RÚV sem tekur til upptöku á leikjum úr knattspyrnu karla og kvenna þar sem allir leikir hverrar umferðar eru teknir upp frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Ætti að vera minna mál að útfæra í handboltanum.

Varðandi efni greinar Víðis þá er það nú bara svo að 8 liða úrvalsdeild hefur sína galla, það var bara ekki spennandi að sjá fjórfalda umferð þar sem eitt lið stakk af og síðustu umferðirnar ekkert spennandi eins og raunin var í fyrra.  Einnig var 25% fallprósenta sem var auðvitað allt of mikið. Það er ekki svo að fyrirkomulagið skapi áhuga og umgjörð heldur er það mikið til verk HSÍ í samstarfi við fjölmiðla að hjálpa til við það. Á hverju vori fer t.d. mikið púður hjá KSÍ og fjölmiðlum að auglýsa deildina með góðum árangri og mikið sýnt frá leikjum í sjónvarpi. Við höfum mjög frambærilega handknattleiksmenn og öfluga deild hér heima sem að mínu viti er verkefni nýrrar stjórnar HSÍ að koma almennilega á framfæri. Samningurinn við N1 gerði lítið fyrir félögin og í raun furðulegur þar sem hann kostaði hvert lið stórfé, ég sem hélt að N1 hefði borgað HSÍ fyrir að auglýsa deildina en það var víst öfugt. HSÍ þarf að hysja upp um sig brækurnar gagnvart félögunum og ekki vera eingöngu samband sem sér um landsliðin sem þeir hafa þó gert með sóma og eiga hrós skilið fyrir að sinna góðu starfi mjög undirmannað. Líklega þarf bara skipulagsbreytingar á starfi HSÍ og meira púðri og peningum varið í að byggja undir grasrótina. Því að hvar er landsliðið ef að félögum fækkar og færri fá áhuga á íþróttinni sem iðkendur og áhugamenn vegna þess sem ég vil leyfa mér að kalla sinnuleysis handknattleiksforystunnar.

Ekki er nóg að kalla til gamla landsliðsmenn sem hóa í nokkra utandeildarspilara og kalla það lið undir merkjum gamalla og gróinna félaga. Það sýndi sig að aðeins 4 lið í 1.deild voru með alvöru lið í vetur og í raun eru skilin þar á milli úrvalsliða sem eiga að vera í úrvalsdeild og hinna. Sama hvort það er kallað 1.deild eða ungmennadeild skiptir ekki máli. Það eru þó alltaf einhverjir hagsmunir stóru liðanna t.d. að geta pikkað upp efnilega menn úr liðum sem falla og þeirra sem komast ekki upp um deild og á meðan verður ekki hróflað við þessu skipulagi.


mbl.is Fljótir að gleyma fyrri raunum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra liðið vann

Það er alveg rétt sem Sebastian þjálfari Selfyssinga segir, þeir eiga ekki erindi í efstu deild með svona spilamennsku og sýndu það ekki þrátt fyrir að halda það sjálfir að þeir væru með betra lið. Afturelding rúllaði gjörsamlega yfir ringlaða Selfyssinga og sáu þeir aldrei til sólar í leiknum. Þrátt fyrir að vera með marga ágæta spilara og skemmtilegt lið þá virðist eitthvað vanta hjá þeim en gaman að sjá í hálfleik hvað litlu strákarnir eru orðnir góðir í handbolta. Framtíðin í þjóðaríþróttinni er björt bæði í Mosfellsbænum og á Selfossi.
mbl.is Góður útisigur Aftureldingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úlfur í sauðargæru

Hve mörgum stúlkubörnum og saklausum drengjum ætli Re kardínáli sé búinn að nauðga undir yfirskini trúarinnar?
mbl.is Vatíkanið tekur undir fordæmingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandaríski draumurinn

Þó segja megi að hrunið komi að vestan og margt misjafnt komi frá Kapítalistunum í draumalandinu. Þá er eitt víst að þeir vita út á hvað hlutirnir ganga. Obama hjálpar fjölskyldunum í landinu, hann setur ógrynni fjár út í atvinnulífið, setur fútt í framkvæmdir og eykur útgjöld á vegum hins opinbera til að koma til móts við kreppuna. Hvað gera vitringarnir hér á landi? Nú allt er sett undir niðurskurðarhnífinn og að meðan að sjúklingnum blæðir út þá eru vaktaskipti. Aðgerðir til að bjarga heimilunum í landinu felast í því að lengja í hengingarólinni svo er talað um að rjúfa þing í mars vegna kosninganna, ja fyrr má nú rota en dauðrota. Getum við ekki sparað okkur kostnaðinn við útrásarvíkinginn á Bessastöðum, flugfreyjuna í stjórnarráðinu, rithöfundinn á Svörtuloftum og fleiri útbrunna stjórnmálamenn og fengið Obama til að kíkja á sjúkraskránna.
mbl.is Obama aðstoðar íbúðareigendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sungið af hjartans list

Karlmannlegur kór með hjarta og pung

til manna og kvenna mun hljóma

Sönglistin seiðandi kraftmikil og þung

pungstórum bræðrum til sóma


mbl.is Syngja með hjartanu og pungnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðavandi heimilanna

Núverandi ríkisstjórn talar um að slá skjaldborg um heimilin í landinu, á það loforð hefur ekki verið fullreynt.  Gríðarleg skuldsetning heimilanna er einn stærsti hlekkurinn í þeirri keðju vandamála sem blasa við almenningi í landinu. Í góðærinu og fasteignaverðsbólunni þá gerðist það að þeir sem áttu eignir högnuðust, t.d.  með því að selja stærri húseignir og minnka við sig. Hinir sérstaklega ungt fólk, sem var í þeirri stöðu að þurfa stækka við sig, kaupa sína fyrstu eign eða þá að byggja nýtt, skuldsettu sig óhóflega. Ljái þeim hver sem vill, flestir höfðu næstum óheftan aðgang að lánsfé með allt að 100% veðsetningu, sumt í erlendum gengiskörfum sem að bankarnir óhikað mæltu með. Nú er þetta fólk í þeirri stöðu að vera í hálfgerðu skuldafangelsi, horfir upp á eignirnar rýrna í verði, skuldirnar hækka sem er óhjákvæmilegt í svo hárri verðbólgu og með verðtryggingu lána.Óverðtryggðu gengislánin hafa hækkað gríðarlega með falli krónunnar og er stærri baggi en flestir ráða við. Þetta er fólkið sem er í mörgum tilfellum með námslán á bakinu, námslán af þeim skala sem eldri kynslóðir þekkja ekki af eigin raun. Hærra menntunarstig almennt og krafa samfélagsins um aukna menntun hefur leitt af sér gríðarlega sókn í hverskonar framhaldsnám, nám við erlenda háskóla og dýrt viðskiptanám s.s. MBA. Þetta ásamt hækkun fasteignaverðs og lóðaverðs sem í mörgum tilfellum var komið út fyrir öll velsæmismörk, þar sem fólkinu í landinu þurfti að að kaupa sér grunnmannréttindi eins og þau að byggja sér þak fyrir höfuðið á fleiri milljónir og jafnvel tugmilljónir, þá aðeins fyrir lóðaréttinn.  Hækkun fasteignaskatta,  hækkun útsvarsprósentu sveitarfélaga, hækkun hita og rafmagns, á matvöru og öðrum nauðsynjum. Allt hefur þetta hækkað og einnig þarf að fæða og klæða börnin okkar og flestir vilja bjóða þeim uppá að vera í einhverjum tómstundum og íþróttum, allt kostar þetta aukin fjárútlát heimilanna. Þau lán sem að almenningur tók á síðustu árum stóðust greiðslumat bankanna, en nú er staðna öllu verri og flestir í fjárhagsvandræðum. Jafnvel þeir sem halda vinnunni eiga erfitt með borga af húsnæðislánunum ásamt öðrum útgjöldum fjölskyldunnar. Þessar aðstæður sem blasa við fjölskyldunum hljóta að flokkast undir hamfarir þó þær séu af manna völdum. Brýnasta verkefnið hlýtur að vera að halda mannauðnum í landinu, því án atvinnu og með vonlausa skuldastöðu er engin leið önnur en að flytja af landi brott. Það hefði með sér gríðarlega afleiðingar fyrir þjóðarbúið og allt hagkerfið. Fólkið sem á að erfa landið mun í stórum stíl leita á önnur mið. Meðan að allt hefur verið í óvissu og kreppan ekki skollið á af fullum þunga þá ber ekki mikið á þessu, en dæmin sýna að sjaldan launar kálfurinn ofeldið. Í raun er hann nauðbeygður að sækja vatnið yfir lækinn og láta reyna á hvort grasið sé grænna hinumegin girðingar.  

Ekki rétt mynd með fréttinni!!

Marian Cozma

Þetta er maðurinn sem stunginn var til bana. Hann var aðeins 26 ára gamall og engin smá smíð enda 210 cm á hæð og 113 kg


mbl.is Rúmenskur landsliðsmaður stunginn til bana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kæri Hannes Hólmsteinn

Mig langaði að setja niður á blað nokkrar línur vegna greinar þinnar í Morgunblaðinu í dag sem ber yfirskriftina ofbeldi og valdníðsla. Þar vísar þú beint til mótmæla almennings og kröfu hans um afsögn ríkisstjórnarinnar, kröfu sem var afleiðing hruns efnahagslífsins og heimilanna í landinu. Þú  kallar það ofbeldi sem hrakti síðustu ríkisstjórn frá völdum, er það ofbeldi að nota lögbundin rétt sinn til mótmæla ástandi sem frjálshyggjuöflin og Sjálfstæðisflokkurinn (hér eftir kallaður flokkurinn) í landinu hafa leitt yfir þjóðina? Fyrrverandi forsætisráðherra Geir Haarde sagði að ekki mætti skella skuldinni á ákveðnar persónur eða einstaklinga þegar hann var spurður hvort að stjórn Seðlabankans ætti að víkja. Það var greinilega ekki inn í myndinni að pólitískur bankastjóri, ráðinn af flokknum skyldi axla ábyrgð á því ástandi sem hann sjálfur kom yfir þjóðina. Ef þú ert því ekki sammála þá ættir þú að lesa greinar eftir þig þar sem þú sjálfur þakkar Davíð allt það góða sem hann hefur yfir okkur leitt, má þá ekki gefa honum smá hlut í því hruni sem nú blasir við?  Davíð sem forsætisráðherra og alráður í flokknum og ríkisstjórn síðustu tæpu 20 árin og svo einnig sem hæstráðandi í Seðlabankanum. Þeirri stofnun sem ætlað er það hlutverk að hafa stjórna á fjármálalífinu, ná verðbólgumarkiðum, halda fjármálastöðuleika, sjá til þess að gjaldeyrisvaraforði sé nægur, halda uppi greiðslumiðlun hagkerfisins, allt þetta mistókst bankanum. Í stað þess er hann í sífelldu stríði við almenning og atvinnulíf í landinu með misheppnaða peningastefnu og handónýtan gjaldmiðil í farteskinu sem hefur ekki valdið öðru en skaða í íslensku efnahagslífi. Varðhundur Davíðs sem ryðst fram á ritvöllinn honum til veikrar varnar er ekki trúverðugur í skrifum sínum  þegar hann talar um leigupenna og auðmenn sem vilja Davíð frá völdum. Krafan er einföld og hún er vilji meirihluta þjóðarinnar (sjá skoðanakannanir) og snýst ekki eingöngu um persónu Davíðs. Hún er sú að við viljum fá aukinn trúverðugleika í Seðlabankann, peningastefnu sem virkar og vinnubrögð sem bera vott um fagmennsku og traust. Það er ekki mjög traustvekjandi að þegar þú talar um að Davíð hafi varað við hruni bankanna, þá er vísað í einkasamtöl og minnismiða, sem hvergi er hönd á festandi. Allar skýrslur og umsagnir um bankanna sögðu einum rómi að þar færu traustar og vel reknar fjármálaeiningar, engar alvöru aðgerðir til að stemma stigu við vexti bankanna og ekkert sem nú má rekja sem viðleitni til að spyrna við fótum. Það getur vel verið og er óumdeilt að Davíð Oddson er einn mikilhæfasti stjórnmálaforingi sem Íslendingar höfum átt. Hefur að bera persónutöfra og valdmennsku sem líkja má við suma einræðisherra sögunnar, næmt auga fyrir aðalatriðum, ákveðni og festu í að fylgja sínum málum eftir, hollustu við þá sem honum eru fylgjandi og áberandi langdrægni gagnvart hinum sem ekki eru honum að skapi eða skoðanaandstæðingum. Allt ágætir eiginleikar forystumanns flokksins en ekki alveg það sem Seðlabankinn þarf til að vera sú stofnun sem sátt er um í þjóðfélaginu. Það er tímaskekkja, sem ekki aðeins erlendir sérfræðingar hafa bent á, að stjórnmálamaður á eftirlaunum fari í Seðlabankann. Steingrímur Hermannsson talar um í endurminningum sínum að veran í Seðlabankanum hafi verið ágæt, en heldur róleg fyrir hans smekk. Þú segir í grein þinni að eftir reglugerðarbreytingar hafi eftirlitsskylda Seðlabankans horfið og aðeins smáverkefni eins og skýrslugerð og lausafjárjafnaðarreglur haldið bönkunum við efnið. Hverjir sömdu leikreglurnar á þessum árum og hverjir voru við stjórn þegar Davíð fór í eftirlaunadjobbið, kannski flokkurinn? Hversvegna er Sjálfstæðismönnum svona í mun að hafa Davíð áfram í Seðlabankanum, eru menn svo lafhræddir við hann að enginn þorir að koma fram opinberlega og krefjast afsagnar hans, vilja menn kannski ekki með nokkru móti að hann komi aftur í stjórnmálin? Góðir og gegnir flokksmenn eins og Ingvi Hrafn sögðu að Davíð og Geir væru í raun eins og æxli í flokknum, en bætir við „hef ég heyrt frá ónafngreindum aðilum í flokknum“, enginn þorir að koma fram undir nafni nema Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Nú þegar Róm brennur og ný ríkisstjórn hefur tekið við kyndlinum, þá ættu þingmenn og sjálfskipaðir varðhundar flokksins að sjá sóma sinn í því að gefa ríkisstjórninni þann starfsfrið sem þeir sjálfir óskuðu eftir en nýttu ekki þegar þeir höfðu hann. Og Davíð sem lagði niður heila stofnun árið 2002 ætti nú ekki að þurfa að barma sér á þeim rithöfundaeftirlaunum sem hann og flokkurinn kom á auk þeirra milljóna sem hann á von á vegna starfsloka sinna í Svörtuloftum.Hannes orðbragðið sem þú notar um mig og almenning í landinu að við séum lýðskrumarar sem fari með ofbeldi og valdníðslu, er bara ekki sæmandi manni sem vill láta taka sig alvarlega. Ekki vera svo blindur af flokkshollustu og ímyndaðri heift óflokksbundna út í Davíð að þú sjáir þig knúinn til að kalla almenning og umboðsmenn hans lýðskrumara og ofbeldismenn.Krafa almennings er einföld við viljum búa við mannsæmandi kjör, hafa vinnu, geta framfleytt fjölskyldum okkar. Búið við svipuð vaxtakjör og í löndum sem við viljum bera okkur saman við, hafa húsnæði og velferðakerfi sem heldur utan um fjölskyldurnar í landinu.  Það er verið að fylgja eftir einni háværustu kröfu Íslandssögunnar að hreinsa til í gjörspilltu stjórnkerfi landsins og það er núverandi ríkisstjórn að gera í umboði fólksins og á hún hrós skilið fyrir það. Tími græðgiaflanna og þeirra sem voru ofurseldir Mammon er liðinn, nú eru það önnur gildi og allt önnur hugmyndafræði sem þurfa brautargengi á Íslandi.

Brúðkaup

Jæja nú gengur bloggsíðan í endurnýjun lífdaga, lá hún á í hýði á meðan nýbakaður eiginmaður var í byggingarframkvæmdum, sveittur við að koma okkur hjónakornunum tilvonandi úr bílskúrnum í hjónaherbergið fyrir brúðkaupsnóttina.  Þessi síða var endurlífguð einungis til þess að koma nokkrum myndum á framfæri fyrir vini, ættingja, velunnara og forvitna bloggara.

Heragi og ístran burt

  Nú þarf maður að koma sér í form fyrir sumarið, það er þetta helsta, utanlandsferðin, sundlaugaferðirnar og svo ekki síst giftingin. Já ekki vill maður vera með bumbuna út í loftið þegar maður stendur keikur við altarið og bíður þeirrar heittelskuðu. Ég las um daginn ráðleggingar um klæðaburð brúðguma og er mælt með því að þeir sem eru framstæðir um miðjuna að þeir dragi buxur yfir ístruna og láti lindað hvíla þar sem hún er hæst, ekki láta buxur undir ístru og ef fótleggir eru mjóir þá vera í buxum með víðum skálmum. Ekki það að ístran sé orðin svo slæm en ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

Já það er ekki auðvelt eftir veturinn að skerpa á magavöðvunum og tóna þá fyrir sumarið og þó, ég hugsa að BootCamp þjálfun sé málið.  Ekki svo margt fyrir löngu fór ég á 6 vikna námskeið hjá þeim þokkapiltum Róberti og Arnaldi, er ekki frá því að farið hafi verið að móta fyrir sexunni á síðustu viku námskeiðs.  Ýmsu hef ég kynnst í líkamsþjálfun í gegnum tíðina en þetta var það langversta/besta sem ég hef lent í um ævina.  Harðsperrur svo rosalegar að ég var farinn að taka bólgueyðandi til þess aðeins að geta gengið niður stiga.  Komst ég að því að megnið af þessum aumingjaskap í manni er tilkominn í toppstykkinu.  Á þrjú hundruðustu armbeygju og manni langar helst að leggjast í gólfið og væla, heilinn segir manni að maður geti ekki einu sinni hálfa armbeygju í viðbót. Sest þá ekki eitt stykki 100 kílóa þjálfari á herðarnar á manni og öskrar 10 í viðbót og viti menn einhvern veginn þá gat maður knúið fram aukakraft til að klára þessar tíu með þjálfarann bókstaflega á herðunum. Enda ekki vanur að láta heilan sal af fólki halda að maður sé einhver aumingi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband