13.2.2009 | 22:35
Verða allt að 20% Íslendinga undir fátækramörkum á árinu?
Fátækramörk eru miðuð við að hafa aðeins 50% af meðaltali ráðstöfunartekna en það eru sömu viðmið og eru notuð innan Evrópusambandsins. Samkvæmt Hagstofu Íslands þá voru meðal ráðstöfunartekjur heimilanna í landinu um 420 þúsund á mánuði á árunum 2005-2007. Þegar þetta er skrifað eru tæplega 15 þúsund manns á atvinnuleysisskrá og margir þeirra eru búnir að vera atvinnulausir síðan í október nóvember 2008. Spáð er enn meira atvinnuleysi á komandi mánuðum.Í dag eru fullar atvinnuleysisbætur 149.523 krónur á mánuði og þar sem tveir einstaklingar afla tekna til heimilis þá eru ráðstöfunartekjur eftir skatta og skyldur samtals 262.604 krónur á mánuði. Það eru rétt rúmlega helmingur af meðalráðstöfunartekjum Íslendinga. Gera má ráð fyrir að meðal tekjur hafi hækkað eitthvað síðan þá, þannig að skv. 50% reglunni verða mjög mörg heimili og einstaklingar með ráðstöfunartekjur undir fátækramörkum á næstu misserum. Flestir þeirra sem eru atvinnulausir eru í aldurshópunum 25-40 ára, fjölskyldufólk sem hefur verið að fjárfesta í sínu fyrsta húsnæði eða stækka við sig og er orðið mjög skuldsett. Það er sá hópur sem er í hvað mestum erfiðleikum að standa í skilum með húsnæðislánin sem í mörgum tilfellum eru í erlendri myntkörfu og hafa hækkað um allt að helming eða meira. Árin 1997-7 var áætlað að tæp 7% þjóðarinnar byggju við fátækt og miðað við ofangreindar forsendur um atvinnuleysi má ætla að gríðarleg aukning verði í þeim hópi, ekki aðeins meðal atvinnulausra, heldur öryrkja aldraðra og annarra hópa sem hafa hvað lægstar ráðstöfunartekjur. Nú hafa aðgerðir ríkisins miðast við að bjarga bönkunum og fyrirtækjunum í landinu en vaxandi áhyggjur eru meðal almennings af því að hann verði látinn bera ábyrgðina og standa undir því algera hruni sem blasir við hagkerfi landsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.