Bráðavandi heimilanna

Núverandi ríkisstjórn talar um að slá skjaldborg um heimilin í landinu, á það loforð hefur ekki verið fullreynt.  Gríðarleg skuldsetning heimilanna er einn stærsti hlekkurinn í þeirri keðju vandamála sem blasa við almenningi í landinu. Í góðærinu og fasteignaverðsbólunni þá gerðist það að þeir sem áttu eignir högnuðust, t.d.  með því að selja stærri húseignir og minnka við sig. Hinir sérstaklega ungt fólk, sem var í þeirri stöðu að þurfa stækka við sig, kaupa sína fyrstu eign eða þá að byggja nýtt, skuldsettu sig óhóflega. Ljái þeim hver sem vill, flestir höfðu næstum óheftan aðgang að lánsfé með allt að 100% veðsetningu, sumt í erlendum gengiskörfum sem að bankarnir óhikað mæltu með. Nú er þetta fólk í þeirri stöðu að vera í hálfgerðu skuldafangelsi, horfir upp á eignirnar rýrna í verði, skuldirnar hækka sem er óhjákvæmilegt í svo hárri verðbólgu og með verðtryggingu lána.Óverðtryggðu gengislánin hafa hækkað gríðarlega með falli krónunnar og er stærri baggi en flestir ráða við. Þetta er fólkið sem er í mörgum tilfellum með námslán á bakinu, námslán af þeim skala sem eldri kynslóðir þekkja ekki af eigin raun. Hærra menntunarstig almennt og krafa samfélagsins um aukna menntun hefur leitt af sér gríðarlega sókn í hverskonar framhaldsnám, nám við erlenda háskóla og dýrt viðskiptanám s.s. MBA. Þetta ásamt hækkun fasteignaverðs og lóðaverðs sem í mörgum tilfellum var komið út fyrir öll velsæmismörk, þar sem fólkinu í landinu þurfti að að kaupa sér grunnmannréttindi eins og þau að byggja sér þak fyrir höfuðið á fleiri milljónir og jafnvel tugmilljónir, þá aðeins fyrir lóðaréttinn.  Hækkun fasteignaskatta,  hækkun útsvarsprósentu sveitarfélaga, hækkun hita og rafmagns, á matvöru og öðrum nauðsynjum. Allt hefur þetta hækkað og einnig þarf að fæða og klæða börnin okkar og flestir vilja bjóða þeim uppá að vera í einhverjum tómstundum og íþróttum, allt kostar þetta aukin fjárútlát heimilanna. Þau lán sem að almenningur tók á síðustu árum stóðust greiðslumat bankanna, en nú er staðna öllu verri og flestir í fjárhagsvandræðum. Jafnvel þeir sem halda vinnunni eiga erfitt með borga af húsnæðislánunum ásamt öðrum útgjöldum fjölskyldunnar. Þessar aðstæður sem blasa við fjölskyldunum hljóta að flokkast undir hamfarir þó þær séu af manna völdum. Brýnasta verkefnið hlýtur að vera að halda mannauðnum í landinu, því án atvinnu og með vonlausa skuldastöðu er engin leið önnur en að flytja af landi brott. Það hefði með sér gríðarlega afleiðingar fyrir þjóðarbúið og allt hagkerfið. Fólkið sem á að erfa landið mun í stórum stíl leita á önnur mið. Meðan að allt hefur verið í óvissu og kreppan ekki skollið á af fullum þunga þá ber ekki mikið á þessu, en dæmin sýna að sjaldan launar kálfurinn ofeldið. Í raun er hann nauðbeygður að sækja vatnið yfir lækinn og láta reyna á hvort grasið sé grænna hinumegin girðingar.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband